
Í tilefni bolludagsins ætla ég að deila með ykkur vatnsdeigsbollu-uppskrift sem ég fékk frá mömmu, hún er ótrúlega góð og klikkar aldrei!
Vatnsdeigsbollur
125 g smjörlíki
2 ¹/₂ dl vatn
125 g hveiti
4 stk. egg
(Þetta verða ca. 28 bollur.)
Súkkulaði glassúr
5 dl flórsykur
2 ¹/₂ msk kakó
4 ¹/₂ msk kaffi (eða vatn)
1 tsk vanilludropar
Aðferð:
1. Smjörlíki og vatn sett saman í pott og látið sjóða saman (suðan þarf að koma upp).
2. Potturinn er tekinn af hellunni, hveitinu hellt út í sjóðandi vökvann og hrært saman þar til deigið er farið að losna frá pottinum.
3. Deigið er sett í skál og kælt niður í vel volgt.
4. Deiginu er skellt í hrærivél (eða hrært með handþeytara) og eggin sett út í, eitt í einu og deigið hrært vel á milli, áður en næsta eggi er bætt við.
Ég nota skeið til að setja deigið á bökunarplötuna, en einnig er hægt að setja deigið í sprautupoka og sprauta því á plötuna.
Bollurnar eru bakaðar á blæstri í 200° í 25 mínútur.
Báðar plöturnar bakaðar í einu.
Þegar bollurnar hafa kólnað eru þær skornar í sundur og sulta, rjómi, jarðaber, súkkulaði eða hvað sem manni dettur í hug er sett á milli og svo súkkulaði yfir.
Með þessari uppskrift þeytti ég ¹/₂ l af rjóma til að setja á milli.



