
Sunnudaginn 29. júlí var sonur minn skírður í Landakotskirkju.
Hann fékk nafnið Líam Myrkvi Bergmann Garðarsson.


Litli dásamlegi draumadrengurinn minn er alltaf svo rólegur og brosmildur og engin breyting var á því á skírnardaginn. Ég hafði einhverjar áhyggjur af því að hann gæti orðið órólegur á meðan á athöfn stæði, svo ég tók pela og snuð með í kirkjuna til öryggis, en hann hló bara og brosti allan tímann.


Líam fæddist 1.júní og við ætluðum að skíra í lok júní, en þar sem fjölskyldan mín lenti í bílslysi þá þurftum við að fresta skírninni. Myrra, litla systir mín þurfti að fara í tvær kjálkaaðgerðir og kjálkarnir voru alveg víraðir saman, svo við ákváðum að fresta veislunni þar til hún hafði losnað við vírana og jafnað sig svo að hún gæti borðað kökur með okkur í veislunni.
Ég hélt að við myndum fresta skírninni þangað til í ágúst en svo kom í ljós að Myrra myndi losna við vírana í lok júlí. Þá ákváðum við að skíra síðasta sunnudaginn í júlí og okkur tókst að henda saman skírn á 2 vikum.

Við vorum með snilldar smáborgarana frá Hamborgarafabrikkunni og voru þeir ótrúlega góðir!
Við vorum með 4 tegundir: Fabrikkuborgara, Morthens, Stóra Bó og Grísasamloku (pulled pork).
Svo vorum við með þrenns konar sósur, Fabrikkusósuna, Bó sósuna og Bernaise sósuna.
Smáborgararnir slá alltaf í gegn og eru algjör snilld fyrir öll tækifæri. Ég hafði smakkað fabrikkuborgarana áður í baby shower-inu mínu og og fannst þeir æði, og vildi því bjóða upp á þá í skírninni.
Stærðin á þeim er fullkomin fyrir veislur þar sem maður vill ekki sprengja sig alveg út (til að skilja smá pláss eftir fyrir kökur) og svo eru þeir svo ótrúlega góðir að ég myndi alls ekki vilja sleppa þeim.
Svo er algjör snilld að hægt sé að fylla út pöntunarform á heimasíðunni hjá þeim og þar er hægt að sjá hvað bakkarnir sem maður velur duga fyrir marga.

Við vorum einnig með veislubakka og ávaxtabakka frá Culiacan.

Ég hafði ekki smakkað veislubakkana frá Culiacan áður en mér fannst þeir líta svo rosalega vel út á síðunni hjá þeim að ég var 100% viss um að þeir væru mjög góðir. Ég hafði ekki rangt fyrir mér, þeir slóu alveg í gegn. Við vorum með fingra quesadillaplatta og fingra burritoplatta.
Hægt er að velja á milli Classic, Mexican eða Piripiri.

Við vorum líka með ávaxtabakka frá Culiacan og þeir voru einnig mjög góðir. Ég hafði hugsað mér að gera ávaxtaspjót sjálf fyrir veisluna en svo þegar ég pantaði matinn frá Culiacan þá tók ég eftir því að þau bjóða upp á ávaxtabakka og ákvað að panta þá líka þar. Það sparaði mér helling af tíma og þeir líta líka mjög vel út! Á spjótunum er vatnsmelóna, ananas og jarðarber. Á síðunni þeirra sá ég að þau bjóða einnig upp á makkarónur og fleira sem gæti hentað vel í veislur.


Við vorum með gullfallega tveggja hæða skírnartertu frá Sætum Syndum. Við völdum súkkulaðibotna með smjörkremi, með demantamunstri og smjörkremsrósum, og sætum skírnarskóm efst.
Einnig er hægt að velja vanillubotn með karamellufrómas, daim og ferskum ávöxtum og fleiri tegundir af kökum.
Svo eru þau líka með flott úrval af kremum, til dæmis saltkaramellu, oreo-, þrista-, tyrkisk peber- og jarðarberjasmjörkrem.
Það var ótrúlega erfitt að velja tertu hjá þeim þar sem þær eru allar algjör listaverk! Ég skoðaði síðuna þeirra alveg fram og til baka og langaði í þær allar. En ég er mjög ánægð með valið, kakan hefði ekki getað verið flottari og svo var hún einnig ótrúlega bragðgóð.
Þjónustan hjá þeim er alveg til fyrirmyndar!
Þau bjóða líka upp á makkarónuturna og jarðarberjaturna sem er mjög flott í veislum.
Ég mæli hiklaust með að panta tertur frá þeim fyrir öll tilefni, þið verðið ekki fyrir vonbrigðum!


Við vorum einnig með uppáhalds ístertuna mína frá Kjörís. Við völdum konfektís með marsipani og í skreytingunni voru blóm, snuð, leikfangakubbar með stöfunum hans Líams og fiðrildi. Svo var nafnið hans og skírnardagurinn skrifað á tertuna með súkkulaði.
Einnig er hægt að velja súkkulaðiís eða jarðarberjaís í staðinn fyrir konfektísinn, og hægt er að fá sykurmassa í staðinn fyrir marsipan.
Ég var með ístertu frá Kjörís í fermingunni minni og ég man hvað mér fannst hún ótrúlega góð.
Hún var rosalega vinsæl í veislunni og hún var alveg jafn góð og mig minnti.

Við vorum með ótrúlega góða kleinuhringi frá Krispy Kreme. Það er orðin "hefð" hjá okkur fjölskyldunni að hafa þá í veislum. Ég valdi bláan og hvítan glassúr og litirnir á þeim létu þá standa mjög mikið upp úr á kökuborðinu, þeir komu svona eiginlega út eins og flott (ætileg) skreyting.

Við vorum einnig með tvær marengs, ostasalat og tomma og jenna kex fyrir krakkana.

Maturinn í veislunni var æði! Við ákváðum að halda skírnina með mjög stuttum fyrirvara og þá fannst mér rosalega þægilegt að geta pantað og fengið tilbúnar veitingar svo að ég þurfi ekki að bæta meira stressi á mig, að baka langt fram á nóttu o.s.frv. Ég er ótrúlega ánægð með hvernig þetta kom út.


Ég keypti gestabókina og stafina í nafnið hans í föndurbúðinni Litir og föndur í Kópavogi.

Ég keypti bláa metallic málningu í Föndru í Kópavogi til að mála stafina, en ég ákvað að geyma það alveg þar til ég væri búin með allt annað fyrir skírnina og endaði á því að mála þá í kringum tvö leytið nóttina fyrir skírnina haha.

Ég fór með gestabókina í Karmelklaustrið í Hafnarfirði til að fá fallega skrautskrift í hana.

Borðin sem setið var við skreyttum við með bláum löber og smartísi. Svo skreyttum við salinn aukalega með bláum honeycombs og litlum pom poms.
Hektor, bróðir hans Líams, var svo yndislegur að leyfa okkur að halda skírnina á 13 ára afmælisdaginn hans, svo við ákváðum að koma honum á óvart með köku og afmælissöng í veislunni.

Örn og Perla systir, guðforeldrar Líams ♡

Við systkinin og Líam♡

Systrahópurinn♡ (Vantar elstu)


Ég og gullmolinn minn♡

Við áttum ótrúlega góðan dag, hann hefði ekki getað verið betri❤︎