Við Garðar og Líam ákváðum að eyða páskunum með fjölskyldunni minni á Selfossi.
Ég byrjaði helgina á að fara með Garðar upp á Langjökul þar sem hann hafði aldrei prófað vélsleða áður. Við skemmtum okkur ótrúlega vel þrátt fyrir að hafa keyrt blindandi hálfa ferðina vegna veðurs haha.



Mamma og Perla voru sjálfskipaðir páskaeggjafelarar og meira að segja fullorðna fólkið slapp ekki, öll páskaegg voru falin. Þar sem húsið hennar mömmu er á 3 hæðum þá var MJÖG erfitt að finna eggin og margir staðir sem komu til greina. En þetta var mjög skemmtilegt, mikill fíflagangur og hlátur.
Þar sem ég á mjög stóra fjölskyldu þá vorum við 25 saman í hádeginu í páskamat hjá mömmu.
Þetta voru fyrstu páskarnir hans Líams. Ég ákvað að leyfa honum að halda á litlu páskaeggi fyrir myndatöku, drengurinn var ekki lengi að grípa tækifærið og smakka eggið. Alsæll með það.


Eftir matinn fórum við með krakkana í íþróttahúsið. Þar var farið í fótbolta, körfubolta og bara allt mögulegt. Þegar við bjuggum fyrir norðan þá fórum við fjölskyldan alltaf í íþróttahúsið á Reykjaskóla, svo við höldum í "hefðina" þó að liðið sé flutt á Selfoss.
Um kvöldið fórum við í mat hjá eldri bróður Garðars og fjölskyldu.
Annan í páskum fór Garðar á æfingu og ég í búðina og ætlaði að hafa matinn tilbúinn þegar hann kæmi heim. Það var allt gjörsamlega tómt í búðinni, það var ekkert einfalt og fljótlegt til, ekki kjúklingur, ekki hakk, svo ég endaði á að kaupa lambalæri (það eina sem var til haha).
Ég ákvað því að bjóða tengdaforeldrum mínum í mat og á einum og hálfum tíma tókst mér að skella í ótrúlega góða máltíð og eftirrétt.
Kökuskreytingarnar ekki alveg uppá 10 hérna, ég gaf mér bara örfáar mínútur í að skella kreminu á þar sem þetta var allt gert í miklu flýti og ég var að flýta mér að henda öllu á borð, en kakan var góð svo það er það eina sem skipti máli ;)
