
Í lok meðgöngunnar las ég margar fæðingarsögur skrifaðar af öðrum mæðrum. Flestar lýstu þær algjörum draumafæðingum og gerði ég ráð fyrir að ég yrði líka svo heppin og að allt yrði ekkert mál.
Loks kom svo að þessu en þetta var alls engin „draumafæðing“ haha.
Fyrstu dagarnir á eftir voru líka frekar erfiðir.
Ég hafði hugsað mér að hafa Garðar, mömmu og Perlu systur viðstödd fæðinguna en þar sem ég fór í keisara mátti ég bara hafa Garðar inni á skurðstofunni með mér.
Við fórum upp á spítala um 21-leytið þann 31.maí og ég fór í keisara morguninn eftir, þann 1.júní.
Mér var rúllað inn á skurðstofu og byrjað var á mænudeyfingunni á meðan Garðar fór í skurðstofuföt til að mega vera hjá mér inni á skurðstofu.
Mænudeyfingin fór mjög illa í mig, um leið og ég fékk deyfinguna fékk ég svakalegan höfuðverk. Mér varð mjög heitt og ég var viss um að það væri að fara að líða yfir mig.
Þegar ég lagðist svo niður fann ég hvað mér varð svakalega óglatt. Ég lét ljósmóðurina vita að ég væri mjög líklega að fara að æla (mjög smekklegt ég veit haha).
Mænudeyfingin gerir það náttúrulega að verkum að ég „lamast“ tímabundið frá maga og niður og hafði ég því ekki kraft í maganum til að ná að æla. Ljósmóðirin stóð því hjá mér með skál og ég lá á bekknum með kaldan þvottapoka á enninu og ældi og ældi. Það var ekkert smá erfitt þar sem ég fann ekkert fyrir maganum og náði ekki að spenna magann. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn máttlaus og liðið jafn illa á ævinni.
Þetta var versti parturinn við fæðinguna og þarna var ekki einu sinni byrjað að skera! Allt annað eftir þetta var ekkert mál miðað við mænudeyfinguna sjálfa fannst mér.
Garðar kom svo loksins, kominn í gallann, og hélt kalda þvottapokanum á enninu fyrir mig haha.

Garðar var spurður að því hvort að hann vildi sjá yfir dúkinn þegar verið var að skera mig. Hann ákvað að gera það, sem var ekki góð hugmynd haha. Hann leit yfir dúkinn í smá stund, settist svo niður á stólinn og var eitthvað furðulegur í framan. Ég spurði hann hvort að það væri ekki allt í lagi hjá honum og þá leið yfir hann. Garðari var þá rúllað út af skurðstofunni á stólnum sem hann sat á. Það fyrsta sem ég hugsaði var að nú væri enginn hjá mér sem ég þekkti og hversu ömurlegt það væri að ég yrði ein þegar sonur minn kæmi í heiminn. Mamma beið inni á stofunni okkar og ég spurði strax hvort einhver gæti ekki hlaupið og sótt mömmu af því ég vissi ekki hvort að Garðar kæmi aftur og mér leist ekkert á að standa ein í þessu.
Nokkrum mínútum seinna kom Garðar aftur og rétt á eftir því kom elsku yndislegi drengurinn minn í heiminn, kl.08:56 ♡
Það kom mér á óvart hvað ég fann lítið fyrir því þegar hann var tekinn út. Ég hélt að ég myndi finna meiri þrýsting eða finna eitthvað meira fyrir þessu, en deyfingin virkaði greinilega vel. Ég var heldur ekki 100% með hugann við þetta þar sem ég var líka að pæla í hvort það væri allt í lagi með Garðar og hvort að ég þyrfti að fá einhvern til að sækja mömmu.
Um leið og sonur minn fæddist byrjaði hann að gráta. Ég gat ekki beðið eftir að fá hann í hendurnar og sjá hann. Hann var (og er) gjörsamlega fullkominn og ég hefði ekki getað verið hamingjusamari.
Ég hélt á honum og dáðist að honum á meðan ég var saumuð saman.
Hann tók brjóstið strax og allt gekk vel. Fljótlega fengum við að fara aftur inn í stofu og þar var yndislega mamma mín. Ég var svo ánægð að hafa hana og hún var svo ótrúlega ánægð að sjá ömmudrenginn. Ég hefði reyndar viljað hafa hana hjá mér inni á skurðstofu líka en það mátti víst ekki hafa fleiri en einn.

Fljótlega eftir fæðinguna byrjaði mig að klæja alveg svakalega í andlitinu.
Ég vissi ekki að það geti verið fylgikvilli mænudeyfingar en ég var alveg að farast úr kláða út daginn.
Við vorum á spítalanum í 4 daga af því að ég var svo slöpp.
Ég var með svo svakalegan höfuðverk og vöðvabólgu næstu daga að ég var farin að eiga mjög erfitt með að snúa höfðinu. Ég hélt að ég væri kannski ekki að sofa nóg og að þetta myndi bara lagast að sjálfu sér, en á fjórða degi var ég orðin mjög slæm og þetta var komið út í eyru.
Ég var hætt að heyra venjulega og var farin að heyra allt eins og það væri með svona "auto-tune effect. Ég byrjaði að æla og var orðin svo máttlaus að ég hafði varla orku í að hafa Líam á brjósti.
Þá var ákveðið að kalla á lækni og hann sagði að þetta gæti lagast við það að ég fengi blóðbót.
Þá var blóð tekið úr hendinni á mér og sett í bakið á mér á sama stað og mænudeyfingin var gerð.
Þetta átti að mynda einhvers konar blóðtappa í bakinu. Þetta var mjög sársaukafullt en þess virði þar sem ég lagaðist nokkrum klukkutímum seinna. Yndislega fjölskyldan mín kom í heimsókn seinna þennan sama dag og ég var sem betur fer orðin hress fyrir það.
Þvílíkur léttir sem það var að losna við höfuðverkinn og að fá heyrnina aftur, ég var orðin pínu stressuð yfir þessu ástandi.

Eins erfitt og þetta var og þrátt fyrir allan sársaukann, var þetta fullkomlega þess virði og ég myndi gera þetta allt aftur ♡
En þetta var ekki búið. Það var ekki nóg með það að ég hafi verið svona slöpp eftir fæðinguna og var rétt að jafna mig líkamlega, þá lendir fjölskyldan mín í bílslysi á leiðinni heim eftir heimsóknina hjá okkur og fór þá andlega hliðin hjá mér alveg í rúst. En það er alveg efni í aðra færslu, og segi ég betur frá því seinna.
En vá hvað ég er þakklát fyrir gullmolann minn og ég elska að fá að vera mamma hans ♡♡♡
