top of page

BÍLSLYSIÐ

Updated: Aug 21, 2019

Ég skrifaði þessa færslu mánuði eftir bílslysið en birti hana aldrei. Ég hef átt mjög erfitt með að tala um þetta og fólk hefur því ekki fengið að vita almennilega hvað gerðist.

Ég hef ákveðið að birta færsluna núna með von um að fólk passi sig betur í umferðinni og sé ekki að stofna lífi fólks í kring í hættu með hættulegum framúrakstri, eingöngu til að spara sér nokkrar sekúndur í umferðinni.

Í þessu tilviki munaði litlu að 4 ára systir mín hefði ekki lifað þetta af, vegna þess að einhver í öðrum bíl var að flýta sér of mikið.

Allt það sem krakkarnir þurftu að upplifa og sjá, og hvernig þeim leið, hefði svo auðveldlega verið hægt að komast framhjá ef þessi framúrakstur hefði bara ekki átt sér stað.4. júní 2018.

Líam var fjögurra daga gamall og við vorum ennþá uppi á spítala af því að ég var búin að vera svo slöpp eftir fæðinguna.

Garðar fór á æfingu og mamma kom með yndislegu systkini mín og frænda að kíkja á nýja fjölskyldumeðliminn.

Sóley og Máney voru að fara til Spánar morguninn eftir svo þeim langaði að kíkja á litla nýja frænda áður en þær færu.

Þau komu beint eftir leikskóla hjá yngstu krökkunum og vá hvað ég var spennt að sjá þau og sýna þeim litla frænda sinn.

Ég horfði á þau skælbrosandi að skoða Líam, allir svo hamingjusamir og lífið gat ekki verið fullkomnara.Það var mikið um fíflagang og hlátur, eins og alltaf þegar við hittumst og ég var bara eitt stórt bros og hugsaði hvað ég væri ótrúlega heppin að eiga þessa yndislegu fjölskyldu!

Ég bý á Akranesi svo þau þurftu að keyra í dálítinn tíma til að komast heim. Garðar kom af æfingu og var með Líam í fanginu á meðan ég fékk mér að borða og horfði á Desperate Housewives.


Ég var nýbyrjuð að borða þegar ég fékk símtal frá Sóley, litlu systur minni sem sagði mér grátandi að þau höfðu lent í bílslysi.

Þetta var erfiðasta símtal sem ég hef á ævinni átt.

Hún sagði mér að það væri verið að flytja alla með sjúkrabílum í bæinn.

Ég var í þvílíku sjokki. Þessi gleðitími með nýfædda barnið mitt breyttist í einhverja martröð á núll einni.


Ég spurði strax hvort það væri ekki örugglega í lagi með alla og hún sagði að Myrra (4 ára) væri meðvitundarlaus og að mamma hafi fengið slæmt höfuðhögg og rotast, hún mundi ekki neitt.


Mamma mundi ekki eftir að hafa verið í heimsókn hjá mér eða að ég hafi eignast barn.

Elsku Sóley reyndi að segja mér hvað gerðist, hún sagði að Myrra hafi verið föst, að það hafi fossblætt úr andlitinu á henni og að hún væri meðvitundarlaus.

Bíllinn fylltist af reyk, allir krakkarnir voru í beltum en samt fengu þau talsverða áverka og krakkarnir hágrétu þegar þau rönkuðu við sér eftir áreksturinn.

Sóley og Máney stóðu sig eins og hetjur, að ná öllum úr bílnum og að hugga krakkana.

Mér hefur aldrei á ævinni liðið jafn illa og þegar ég heyrði þetta og ég vildi komast til þeirra strax.

Ég reyndi eins og ég gat að fókusa á jákvæðar hugsanir og að Myrra skuli komast í gegnum þetta og jafna sig.


Ég átti að vera í allavega eina nótt í viðbót á spítalanum og þau ætluðu að fylgjast með því hvort ég myndi hressast eftir blóðbótina sem ég fékk um morguninn, en ég gat ekki hugsað mér að vera ekki hjá fjölskyldunni minni eftir þetta. Sérstaklega þar sem mamma fékk heilahristing og systkini mín í þvílíku sjokki eftir þetta og þurfa að hafa einhvern hjá sér.

Ég bað um að láta útskrifa okkur sem fyrst, svo að barnalæknir var kallaður til, til að klára læknisskoðunina á Líam, og þá var hægt útskrifa okkur strax.

Við tókum dótið okkar saman í miklu flýti, drifum okkur út í bíl með 4 daga gamla barnið okkar og brunuðum í bæinn, beint upp á bráðamóttöku.


Ekki beint heimferðin sem ég hafði hugsað mér.


Ég gat auðvitað ekki tekið nýfætt barn með inn á bráðamóttöku svo Garðar var úti í bíl með hann á meðan ég fór inn.

Þetta var ömurleg sjón, að koma inn á bráðamóttöku og sjá næstum alla fjölskylduna liggjandi í sjúkrarúmum, öll með svaka áverka og skurði. Öll hrædd og vildu lítið tala.

En vá hvað ég var fegin að sjá þau og að vita að þau væru öll á lífi!


Elsku Myrru var haldið sofandi og við vissum ekki stöðuna á henni. Fljótlega kom læknir sem sagði okkur að myndirnar höfðu sýnt að hún væri kjálkabrotin og að hún þyrfti að fara strax í aðgerð.

Ég knúsaði systkini mín í klessu og sagði þeim að allt yrði í lagi og að þau væru ótrúlega sterk.

Ég sá að síminn hennar mömmu var alblóðugur, svo ég þreif hann og sprittaði áður en mamma fékk hann. Ég átti ótrúlega erfitt með að halda aftur af tárunum.


Sóley, Frosti, Jasmín, Eldon, Bæron og Áki voru flutt í sjúkrabílum yfir á barnaspítalann, en mamma, Myrra, Jasmín og Máney voru eftir á bráðamóttökunni.

Ég fór á efri hæðina að kíkja á Máney og Jasmín og athuga hvort þær væru í lagi, svo fór ég yfir á barnaspítalann að knúsa hin gullin mín aðeins meira.

Það var ótrúlega erfitt að kveðja þau og fara heim þetta kvöld og mér leið alls ekki vel.

(Pabbi og amma voru með yngstu krökkunum á barnaspítalanum yfir nóttina.)

Þetta var alls ekki hvernig ég hafði hugsað mér að líða fyrstu nóttina með nýfædda barnið mitt heima.

Perla systir var ekki á landinu, hún var í keppnisferð með landsliðinu, en ég ákvað að hringja í hana og segja henni hvað hafði gerst. Ég ákvað að segja henni þetta strax, áður en hún myndi frétta þetta frá einhverjum öðrum, þar sem þetta fréttist mjög hratt.

Strax daginn eftir slysið voru komnar myndir af bílnum framan á flestar fréttir tengdar slysinu.

Perla tók þessu alveg eins og ég og vildi bara koma strax heim til fjölskyldunnar, svo hún og Örn (kærasti hennar, sem var í öðru landi en hún) bókuðu sér strax flug heim.

Næsta dag vakna ég og fer strax í bæinn upp á spítala til þeirra og öll næsta vika var svona, mig langaði bara að vera hjá þeim eins mikið og ég mögulega gæti og knúsa þau öll endalaust.


Þennan dag kom í ljós að tvö bein höfðu brotnað í öðrum fæti hjá Bæron (3 ára bróður mínum) svo hann var settur í gifs. Það var ekki auðvelt til að byrja með að vera lítill 3 ára gutti í gifsi og geta ekki gert allt sem hann vildi, en hann aðlagaðist fljótt og var farinn að spila fótbolta með gifsið á strax á öðrum degi.Jasmín var fljótlega flutt yfir á barnaspítalann og Máney var útskrifuð.

Ég fór eins oft upp á bráðamóttöku til mömmu og Myrru og ég gat og vá hvað það var erfitt að sjá elsku Myrru á meðan henni var ennþá haldið sofandi.


Skjöldur og Frosti fóru norður með pabba, Jasmín og Áki byrjuðu á að fara á Hvammstanga með ömmu og fóru svo á Breiðdalsvík með Helgu og Pétri.

Eldon og Bæron fóru með Perlu og Erni á Selfoss, og mamma var áfram með Myrru uppi á spítala.


Ég var nýbúin að eignast mitt fyrsta barn svo ég er ótrúlega heppin að eiga mömmu sem er vel vön 10 barna mamma sem kann ÖLL trixin í bókinni. En mér fannst ég ekki geta hringt í mömmu þar sem hún hafði fengið svo slæmt höfuðhögg að ég vildi ekki vera að hringja og "trufla" hana þegar hún var að jafna sig, ef mig vantaði ráð.

Eitt kvöldið hágrét Líam svo, litla barnið mitt sem hafði varla heyrst múkk í frá því hann fæddist.

Ég fór í þvílíkt panikk af því að ekkert virkaði til að róa hann. Barnið var búið að hanga á brjósti svo heillengi að ég hélt að það gæti ekki verið að hann væri svangur. Ég reyndi að róa hann og rugga honum, gefa honum snuð, nudda hann og allt sem mér datt í hug en ekkert virkaði. Ég byrjaði sjálf að gráta með honum og langaði svo að geta hringt í mömmu. Ég sendi henni skilaboð og spurði hvort hún væri vakandi og hringdi svo og fékk hana til að hjálpa mér að róa barnið.

Álagið og vanlíðanin eftir bílslysið gerði það að verkum að ég missti mjólkina. Sama hversu oft ég setti hann á brjóst og notaði brjóstapumpu og allt, svo ég byrjaði að gefa honum pela.Myrru var haldið sofandi í 8 daga og tíminn leið ótrúlega hægt, mig langaði svo að sjá hana með opin augun og vita að allt væri í góðu og að hún myndi jafna sig.


Loksins kom að deginum sem hún vaknaði. Ég var SVO ánægð að sjá hana vakandi!

Elsku gullið var svo bólgin í andlitinu að hún var ekkert lík sjálfri sér, og kjálkinn víraður saman.

Hún gat ekki talað né grátið, hún var verkjuð og leið illa. Það var ótrúlega erfitt að sjá hana svona og vita að það sé ekkert sem maður getur gert til að taka sársaukann í burtu fyrir hana.


Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er fyrir 4 ára barn að vakna, vitandi ekkert hvað gerðist, hvar hún sé eða af hverju henni sé illt. Af hverju hún geti hvorki talað né grátið. Að geta ekki sagt frá því hvernig henni líði eða hvað sé að.


Hún marðist á lunga og kjálkabrotnaði og var því með kjálkann víraðan saman.

Hún gat hvorki bitið saman né opnað kjálkann.

Öndunarvélin var í gegnum barkann til að auðvelda henni og til að hægt væri að komast að öndunarveginum auðveldlega ef þyrfti þar sem kjálkinn var víraður saman.

Og þar sem öndunarvélin fór í gegnum barkann þá heyrðist engin rödd.


Hún gat því ekki talað almennilega en reyndi eins og hún gat að fá okkur til að skilja hvað hún sagði með varalestri og við tókum mjög fljótt eftir því að hún var ennþá sama fyndna og dásamlega skottan. Þvílíkur léttir!
Fljótlega var hún komin úr öndunarvélinni og var bara með súrefni í barkaþræðinguna.

Það var búið að trappa svæfingu og búið að fækka verulega lyfjum og slöngum hjá henni.

Öll bólga að verða runnin af henni og hún orðin þekkjanleg gullfallega stelpan.

Hún fór aftur í aðgerð. Aðgerðin gekk mjög vel og það voru engin bakslög í líðan Myrru við það að fara í aðgerðina.

Næstu skref voru svo að halda áfram að vakna betur, setjast upp, drekka, fækka fleiri lyfja- og vökvaslöngum og svo þegar hún var orðin nógu hress fékk hún að fara á barnaspítalann.


Við skreyttum herbergið hennar með blöðrum, böngsum, kórónu og alls konar fínum hlutum, mamma hengdi upp fínu prinsessukjólana hennar og við gerðum allt sem við gátum til að gleðja hana.

Við spiluðum og horfðum á Söngvaborg, hún gaf Líam pela og knúsaðist mikið í honum.

Þar sem Líam var ekki kominn með nafn þá ákváðu krakkarnir að kalla hann Candyfloss, Myrru fannst það mjög fyndið.


Eins erfiður og tíminn uppi á spítala var fyrir hana, og þrátt fyrir allan sársaukann þá reyndi hún að vera ótrúlega jákvæð og hún hló og brosti eins og hún gat.


Að elsku litla 4 ára stelpan sem vildi bara aðeins kíkja á litla nýja frænda sinn eftir leikskóla hafi þurft að lenda í þessu!


4 ára barn á ekki að þurfa að ganga í gegnum þetta, bara af því að einhver ákveður að „taka sénsinn“ á að stytta ferðina sína í umferðinni um nokkrar sekúndur, þegar aðstæður eru ekki nógu góðar í það.


Myrra er ótrúlega sterk og dugleg og stóð sig eins og hetja.

Ótrúlegt hvað bólgurnar minnkuðu hratt og sárin gréru.

Hún var í nokkrar vikur uppi á spítala og mátti svo loksins fara heim, en þó enn með vírana og mátti einungis borða fljótandi fæði í nokkrar vikur í viðbót.

Við seinkuðum því skírninni hans Líams þar til Myrra væri laus við vírana svo að hún gæti fengið sér kökur með okkur.


Ég var búin að ímynda mér að fyrsti mánuðurinn með nýfædda barnið mitt yrði bara gleði og hamingja, en þess í stað var andlega hliðin hjá mér alveg í rúst, ég var ótrúlega viðkvæm og ef fólk talaði um bílslysið eða fjölskylduna þá fór ég að hágráta.

Allan fyrsta mánuðinn í lífi Líams vorum við uppi á barnaspítala að knúsa Myrru. Ég náði ekki að jafna mig fyrr en Myrra var útskrifuð og orðin 100% góð.


Ég hef líka verið með þvílíkt samviskubit yfir að hafa ekki getað verið með hugann 100% við nýfædda barnið mitt. Ég hélt að ég yrði svo hamingjusöm og uppá mitt besta að snúllast heima með litla barnið mitt og að njóta tímans, en ég grét stanslaust útaf bílslysinu og yfir því hvað fjölskyldan mín þurfti að ganga í gegnum. Ég vona innilega að Líam hafi ekki fundið fyrir því hvað mömmu sinni leið illa fyrsta mánuðinn.

Líam bjargaði mér samt alveg. Litla gullfallega og yndislega barnið mitt fékk mig til að brosa og hlæja og hætta aðeins að hugsa um það sem hafði gerst.

Mér finnst líka svo ömurlegt að mamma hafi þurft að lenda í þessu, og ég get ekki ímyndað mér hvað hún hefur verið hrædd í þessum aðstæðum.

Þetta er eitthvað sem enginn ætti að þurfa að upplifa.

Að vera við stýrið á bíl og að fá annan bíl á fleygiferð framan á sig, án þess að geta gert neitt í því.

Hún bremsaði að sjálfsögðu eins og hún gat þegar hún tók eftir bílnum koma á fleygiferð á móti sér á hennar vegarhelming, hún reyndi að beygja útaf, en það er lítið hægt að gera þegar maður fær bara nokkrar sekúndur í það, þó að maður virkilega reyni að koma í veg fyrir það þegar maður áttar sig á hvað er að fara að gerast.


Myrra er hress í dag, ég held að kjálkinn sé orðinn góður, nokkrar barnatennur brotnuðu og hún er með stórt ör á hökunni eftir kjálkaaðgerðirnar.

Hún er orðin 5 ára og byrjar í grunnskóla eftir nokkra daga, ári á undan jafnöldrum sínum.

Hún er algjör gullmoli og ótrúlega klár!

Frosti er með ör á enninu og yfir augabrúnina að auganu.

Fleiri eru með áverka og ör á fótum, baki, höfði.

En allir áverkar eru þó bara smáatriði, ég er bara svo innilega þakklát fyrir að fjölskyldan mín lifði þetta af og ég er endalaust heppin að eiga þau öll að.Ég keyri þennan veg á hverjum degi, og þvílíkt sem fólk er að drífa sig og taka fram úr á stöðum sem þau ættu alls ekki að vera að því!


Ég fæ enn sting í hjartað þegar ég keyri fram hjá þessum stað og hugsa um bílslysið og allt það sem Myrra og öll fjölskyldan þurfti að ganga í gegnum.


Er fólk í alvöru að flýta sér svona mikið í umferðinni?


Þessar örfáu sekúndur sem einhver hefði sparað sér á þessum framúrakstri var ekki þess virði að láta fjölskylduna mína þurfa að ganga í gegnum þetta og að láta litla 4 ára stelpu þurfa að eyða hálfu sumrinu á spítala, mjög verkjuð, með kjálkann víraðan saman og líða ótrúlega illa.


Ég hugsaði oft "af hverju fjölskyldan mín? Af öllum bílum sem keyrðu þennan dag, af hverju þurfti þessi bíll að lenda á fjölskyldunni minni?"

En það gerir ekkert gott að hugsa svona, þetta gerðist og ég get engu breytt.

En ég get samt sagt frá þessu sem við lentum í og fengið fólk til að hugsa aðeins um afleiðingarnar ef það keyrir þreytt og sofnar undir stýri, keyrir hratt og glæfralega, tekur fram úr í slæmum aðstæðum og mikilli umferð, er í símanum undir stýri, keyrir undir áhrifum áfengis o.s.frv.Hugsaðu þig tvisvar um áður en þú tekur fram úr í hættulegum aðstæðum sem gætu stofnað öðrum í kring í hættu, þú veist ekkert hvort að bíllinn sem er að koma á móti þér sé fullur af börnum.


Ég vona innilega að þessi færsla fái fólk til að passa sig betur í umferðinni.

Knúsið þau sem ykkur þykir vænt um, maður veit aldrei hvað gerist á morgun.

bottom of page