top of page

ÍTALÍA

Updated: Feb 13, 2019

Við erum nýlega komin heim úr æðislegri vikuferð til Ítalíu.

Við flugum út með WOW air og lentum í Milan. Flugið var rúmur 3 og hálfur tími og Líam var ótrúlega rólegur allt flugið! Hann svaf í rúman einn og hálfan klukkutíma og var svo bara að spjalla, hlæja, drekka og skoða dótið sitt restina af fluginu.

Við ákváðum að eyða fyrstu nóttinni í Milan og skoða borgina aðeins áður en við færum á næsta áfangastað. Við löbbuðum að Milan Cathedral og fórum svo á veitingastað sem heitir Terrazza Aperol.

Þar vorum við með ótrúlega flott útsýni yfir kirkjuna og allt torgið.


Við tókum leigubíl að Ceresio 7, rooftop bar sem var með mjög fínt útisvæði og sundlaug. Veðrið var ótrúlega gott svo það var mjög þægilegt að sitja þarna í sólinni með ískaldan drykk.

Við gistum á mjög flottu og vel staðsettu hóteli í Milan en okkur fannst ein nótt þar nóg af því að við vorum búin að ákveða að skoða nokkra aðra staði.
Næsti áfangastaður var Jesolo. Þar gistum við í íbúð á 16.hæð með ótrúlega flottu útsýni yfir ströndina og bæinn.

Þessi bær (eða allavega þessi hluti bæjarins sem við vorum á) er meiri svona sumar-túrista staður og þar sem við komum í október þá var nánast allt lokað á því svæði sem við vorum á.

Það var einn veitingastaður opinn í göngufæri en annars tókum við leigubíl í ca.5-8 mínútur til að komast að matvöruverslun, McDonald‘s og fataverslunum.


Við notuðum tímann í Jesolo í að slappa af og liggja í sólbaði, en þegar við vorum komin með nóg af því þá fórum við í næsta bæ, Sirmione.

Hótelið var alveg við Lago di Garda (Lake Garda).Þar vorum við í nokkra daga og það var mjög fínt. Morgunmatur var innifalinn á hótelinu en við fórum alltaf út að borða í hádeginu og á kvöldin.

Það var mjög stutt að labba að kastalanum og þar eru alls konar veitingastaðir og búðir.


Síðasta deginum eyddum við í Verona.

Þar skoðuðum við Casa di Giulietta (Rómeó og Júlíu svalirnar), Verona Arena (Colosseum) og svo fékk ég loksins smá tíma til að versla.
Við vorum mjög heppin með veður, það var glampandi sól alla dagana nema einn, en við eyddum honum hvort sem er í bíl að ferðast á milli staða.

Við tókum kerruna með okkur allt sem við fórum svo Líam gæti sofið í henni og svo var þægilegt að geta geymt töskuna undir kerrunni með hitabrúsanum, pelum, peladuftinu, bleyjunum og öllu sem við þurftum að hafa með okkur þegar við fórum frá hótelinu.

Líam fékk oft leið á því að liggja í kerrunni þegar hann var vakandi og þá kom það sér ótrúlega vel að hafa burðarsjal með okkur svo að hann gæti hangið á mér í staðinn.


Við fengum Baby K‘tan burðarsjal að gjöf frá Móðurást áður en við fórum í ferðina.

Það var algjör snilld og við notuðum það mjög mikið alla ferðina, meira að segja uppi á flugvelli.

Líam elskaði að fá að hanga á mömmu sinni allan daginn og mér fannst ótrúlega þægilegt að geta haft hann á mér en haft báðar hendurnar lausar á sama tíma.

Honum fannst æði að fá að vera uppréttur og að geta horft í kringum sig og skoðað meira, í staðinn fyrir að vera fastur í kerrunni.


Það er ótrúlega auðvelt að festa burðarsjalið á sig og það er svo þunnt að það bætir engum auka þunga á mann, eins og sumir burðarpokar gera.

Neðst í færslunni eru myndbönd sem sýna mismunandi leiðir til að festa burðarsjalið.

Í þau skipti sem Líam sofnaði á meðan hann var í því, þá leyfði ég honum bara að sofa þar í staðinn fyrir að færa hann yfir í kerruna og honum fannst það mjög þægilegt.

Flugið heim var svipað langt og flugið út og Líam svaf alla leiðina.Allt í allt heppnaðist ferðin ótrúlega vel og það var mun minna vesen að ferðast með ungabarn en ég hafði haldið.bottom of page